Tuesday, September 16, 2014

Grein um gróðurelda

Í næsta hefti Náttúrufræðingsins, 84(1-2): 19-26, er grein um árstíðarbreytingar í tíðni gróðurelda á Íslandi.

Ágrip. Upplýsingum um gróðurelda á Íslandi var safnað með ítarlegri leit í rafrænum gagnasöfnum af fréttum, en fyrstu fréttir af gróðureldum voru frá 1943. Þá var leitað í gagnagrunni frá Mannvirkjastofnun fyrir árin 2003–2010 og frá brunavörnum Borgarbyggðar (2010). Flestir eldarnir eru litlir, en þó urðu tíu eldar þar sem yfir hektari lands brann á árunum 2007–2013, þar af sex sem voru stærri en 10 hektarar. Langsamlega flestir eldar kvikna vegna íkveikju (72%). Greinilegur árstíðamunur er á hvenær gróðureldar kvikna hérlendis, en langalgengast er að þeir verði á vorin (mars–maí, 70% gróðurelda), ef tekið er tímabilið 1943–2012, með hámarki í maí (29% af eldum ársins), þar á eftir í apríl (28%) og svo í mars (13%). Í janúar verða nokkuð margir eldar
(6%) og kvikna þeir augljóslega oftast vegna flugeldanotkunar kringum áramót. Ekki eru til nógu nákvæm gögn til að meta nákvæmlega hvort tíðni gróðurelda hafi breyst síðustu áratugi eða hvort dreifing þeirra á árstíðir hafi breyst. Hins vegar virðist sem gróðureldar yfir sumarmánuði séu tiltölulega nýleg þróun. Hún fer saman við hnattræna hlýnun, aukna skógrækt og sumarhúsabyggð og minni beit, sem hefur aukið gróðurmagn víða á landinu. Þetta gefur ríka ástæðu til að fylgjast vel með, skrá á skipulegan hátt gróðurelda og undirbúa viðbragðsáætlanir og hættumat vegna þeirra.

image

Hlutfallsleg dreifing elda á mánuði árin 1943–2000 (bláar súlur; 161 atburður) og 2001–2012 (rauðar súlur; 947 atburðir) og staðalfrávik fyrir hvern mánuð. – The distribution of wildfires each month for the period 1943–2000 (blue columns; 161 events) and 2001–2012 (red columns; 947 events), and standard deviation.

Sunday, September 7, 2014

Um loftmengun vegna eldgossins í Holuhrauni

Nú hefur eldgosið í Holuhrauni staðið í nokkurn tíma; frá 31. ágúst ef man rétt.

Töluvert af hrauni hefur komið upp, eins og sést ágætlega á þessari Landsat mynd frá NASA.

20140906_LC82170152014249LGN00_crop
Landsat 8 mynd frá NASA frá 6. september 2014.

Nú hefur hraunið náð út í farveg Jökulsár á Fjöllum, sem veldur gufusprengingum og hefur einhver áhrif á flæði jökulárinnar á svæðinu.

Eitt helsta áhyggjuefnið er loftmengun vegna SO2 gass sem fylgir eldgosinu.

iceland_ompsso2_trm_20140904
SO2 í lofti yfir á 8 km “dýpi” (NASA). Samsé heild yfir töluverða þykkt frá nærri jörðu og 8 km upp.

Það hjálpar hinsvegar mikið að þetta er lítið gos. Styrkur sem mælst hefur í Reyðarfirði, um 250 µg/m3 10-mín gildi, er töluvert hár, en engu að síður langt frá hættumörkum. Til dæmis eru heisluverndarmörk fyrir almenning 350 µg/m3 fyrir klst meðaltal og vinnuverndarmörk u.þ.b. 5 sinnum hærri en það.

Nýlegar mælingar á austfjörðum benda til þess að styrkurinn sé undir 300 µg/m3 á því svæði, þrátt fyrir bláa móðu yfir austurlandi. Sú móða sést vel á næstu mynd.

20140906_1330_modis_truecol_A20142491330_crop
MODIS mynd frá NASA og VÍ frá 6. september 2014 kl. 13:30.

Nú er síðan spennandi að fylgjast með því hvort 1) gangurinn brjóti sér leið að yfirborði undir jökli, 2) Bárðabunga fari að gjósa, 3) Askja vakni eða 4) allt deyji út.

Sunday, July 13, 2014

Flúor (F) mengun í Reyðarfirði 2014

image
Mynd fengin úr http://ust.is/library/Skrar/Atvinnulif/Mengandi-starfsemi/Fluor-Reydarfirdi/Fluormaeling_juni_2_2014.pdf.

Viðmiðunarmörkin fyrir búfé eru 40 µg/g, en eins og sést er styrkurinn, utan þynningarsvæðis (gula línan), víða töluvert hærri.

Vonandi tekst að minnka þessa losun með betri síun og lagfærinum á álverinu sem fyrst.

Sunday, April 20, 2014

Heilsuverndarmörk brennisteinsvetnis á Íslandi

Nýlega birtist grein eftir Sigurð Björnsson og Þröst Þorsteinsson þar sem heilsuverndarmörk brennisteinsvetnis hérlendis eru borin saman við sambærileg mörk víða í heiminum.

Í ljós kemur að mörkin hérlendis skera sig ekki úr fyrir að vera ströng, þrátt fyrir að því hafi annað slagið verið haldið fram.

Á myndinni hér á neðan má sjá samanburð heilsuverndarmarka. Smellið á myndina til að sjá stærri.

image
Heilsuverndarmörk á Íslandi (græn lína), viðmið WHO (rauð lína) og mörk/viðmið í þeim löndum, ríkjum og fylkjum sem skoðuð voru. Meðaltalstími er innan sviga.

Einnig tókum við saman upplýsingar um heilsufarsáhrif brennisteinsvetnis og greiningarmörk og settum fram á grafinu hér á neðan.

image
Áhrif H2S á lyktarskyn og heilsu. Ef styrkur er við íslensku heilsuverndarmörkin þarf hann að aukast u.þ.b. þrjúhunduðfalt til að fólk finni fyrir óþægindum vegna augnertingar. Grænir punktar eru lággildi, rauðir eru hágildi. Mælikvarði á y-ás er lógaritmískur.

Áhrifin skiptast gróflega í bráðaáhrif, augnerting og þarf fyrir ofan, og síðan er óljósara hvar og hvernig langtímaáhrifin koma fram. Þó má til dæmis skoða það að ónot vegna lyktarmengunar eru við lægri gildi en heilsuverndarmörkin.

Mörk WHO eru sett með bráðaáhrif í huga, og því ekki strangt til tekið sambærileg við íslensku mörkin sem eru hugsuð til verndunar vegna langtíma áhrifa.

Heimild

Sigurður Björnsson og Þröstur Þorsteinsson. 2013 (prentað 2014).
Heilsuverndarmörk brennisteinsvetnis og styrkur þess á höfuðborgarsvæðinu.
Náttúrufræðingurinn 83(3-4): 151 - 158.

Thursday, February 27, 2014

Svifryk og gróður–umfjöllun í Tímariti Háskólans 2014

Alltaf gaman að geta kynnt rannsóknir sínar. Í Tímarit Háskólans 2014 er fjallað aðeins um rannsóknir sem eru í gangi á áhrifum gróðurs á styrk svifryks.

Haskolatimaritid_2014_Throstur

Tímaritið í heild er hér (frétt á bls. 122).

Wednesday, February 19, 2014

Sterk austanátt og mikið svifryk

Í dag, 19. febrúar 2014, hefur verið mjög mikið svifryk í Reykjavík og víðar um landið.

Mjög sterk austanátt hefur verið allsráðandi í dag og þurrt, alveg þar til aðeins snjóaði síðdegis í Reykjavík – til dæmis.

image
Veðrið klukkan 17, enn mikill vindur. (Fallega skipt hitanum – blátt fyrir norðan, rautt fyrir sunnan)

image
Vindhraði í Reykjavík. Sjáum að toppur í svifryki, hér að neðan, passar vel við mesta vindhraðann upp úr 12. Síðan snjóaði aðeins um 16, og svifryk strax mikið niður.

Svifryk (PM10) mælt við Grensásveg fór verulega hátt ídag.

image
Af síðu UST. Ef litið er í töflu er hæst gildið 2133 µg/m3!

 

Mikið svifryk fyrir austan eins og þessi frétt af mbl.is segir frá:
Rykský yfir Kirkjubæjarklaustri

Tuesday, February 11, 2014

… og vindurinn kom til bjargar loftgæðunum

Eins og ég nefndi í pistli fyrr í dag, þá var okkar besti séns til að koma í veg fyrir mikið svifryk seinnipartinn að það færi aðeins að hreyfa vind. Það gekk eftir og toppurinn í eftirmiðdaginn varð ekkert stór.

image

Við sjáum að upp úr 12 og sérstaklega eftir 15, varð vindur heldur meiri og vindhviður fóru að slá í 10 m/s.

Áhrifin sjást glöggt á styrk svifryks (bláa línan) og raunar Nituroxíðs; NOx; (gula línan).

image

Mér sýnist að mögulega gætum við skriðið yfir heilsuverndarmörkin, sem eru 50 µg/m3 fyrir 24-klst meðaltal.

Að lokum er hér fjöldi bíla á leið vestur og síðan austur Ártúnsbrekkuna í dag.

Vestur:

image

Austur:

image

Fallegt stillt veður og mikið svifryk

Núna er verulega stillt og fallegt veður í Reykjavík. Sól, hiti rétt undir frostmarki og mjög hægur/enginn vindur.

image

Vindhraði í Reykjavík fenginn af síðu Veðustofu Íslands. Frá því um 6 í morgun hefur verið alveg logn (vindhraði <2 m/s og engar hviður).

Samfara því er styrkur svifryks mjög hár við Grensásveg. Þar er það umferðin sem mengar. Á myndinni hér að neðan sést þetta samband sérstaklega vel. Nituroxíð (NOx; appelsínugula línan) myndast við útblástur bíla og greinilegt er að svifrykið (bláa línan) er vegna umferðar þegar gögnin eru skoðuð saman.

image

Það verður “spennandi” að sjá hvort toppur komi seinnipartinn. Eina sem getur bjargað er aukinn vindur og úrkoma.

Tuesday, January 28, 2014

Gróðureldur í Noregi

Hér á Íslandi hugsum við oftast ekki mikið um gróðurelda. Sér í lagi ekki eftir sumar eins og í fyrra, þegar varla var þurrt tvo daga í röð (amk sunnanlands). Hinsvegar er mikill gróður víða hérlendis og þurrkatímabil geta orðið löng og gróður mjög þurr.

Nú geisa gróðureldar í Noregi. Ef þið skoðið myndirnar sem fylgja fréttunum (tenglar hér að neðan) þá má sjá að landslagið þarna er ekki svo frábrugðið því sem finna má hér á Íslandi. Sérstaklega er rétt að benda á að talað er um að eldurinn hafi kviknað í lyngi !

Verður manni strax hugsað til t.d. Skorradalsins, þar sem sveitastjórnin hefur lengi unnið að því að koma gróðureldum inn í skipulagsmál sveitarfélaga. Og hreinlega vekja athygli á þeirri hættu sem skapast getur þar og mjög víða á landinu.

Brann Flatanger - Foto: Tariq Alisubh / NRK
Mynd af vef NRK: http://www.nrk.no/nyheter/1.11500908

Brann Flatanger - Foto: Tariq Alisubh / NRK
Mynd af vef NRK: http://www.nrk.no/nyheter/1.11500908

Brannfare. Meteorologisk institutt varsler stor skogbrannfare fra Helgeland til Vestlandet. Bildet viser brannen i Flatanger i natt.<br />(Foto: Ove Magne Ribsskog/Flatangernytt)
Mynd af vef adressa.no: http://www.adressa.no/nyheter/nordtrondelag/article9029229.ece

Tenglar á fréttir og myndir af eldunum í Þrændarlögum: