Friday, January 18, 2013

Mengun vegna gróðurelda

Mengun vegna gróðurelda
Þröstur Þorsteinsson og Þorsteinn Jóhannsson

Glærur frá fyrirlestri á málþingi um gróðurelda 17. janúar 2013 í Hjálmakletti, Borgarnesi.

Tuesday, January 15, 2013

Loft(ekki)gæði í Peking og suður af Himalaya fjöllum

Mökkur suður af Himalaya-fjöllum

Suður af Himalaya-fjöllum er einskonar “á” af mekki (e. haze), sem verður til vegna gróðurelda sem kveiktir eru vegna landbúnaðar, iðnaðar- og umferðar- mengunar. Til að gera þetta verra eru síðan hitahvörf á þessu svæði, sem loka mengunina við yfirborð jarðar. Takið sérstaklega hvernig fjallgarðurinn afmarkar “ánna” til norðurs.

A River of Haze
Indland og Bangladesh svæðið suður af Himalaya-fjöllum þann 11. janúar 2013. Image courtesy of NASA/Rapidfire.

Þessi mynd, frá 10. janúar 2013, sýnir þetta jafnvel enn betur – víðara sjónarhorn.

image
10. janúar 2013. Image courtesy of NASA/Rapidfire.

Ótrúleg svifryksmengun í Peking (Beijing).

Samkvæmt fréttum og mælingum, hefur styrkur PM2.5 í Peking (Beijing) náð 886 µg/m3 (held að þetta séu klukkustundar-gildi) á nokkrum stöðum og víða yfir 700 µg/m3. Svona hefur þetta verið í nokkra daga. Heilsuverndarmörk samkvæmt WHO eru 25 µg/m3 (mögulega 20 µg/m3) – þannig að þarna er mengunin að fara amk 30-falt yfir sett mörk !

Í Kína er víða nóg af uppsprettum fyrir svifryk, orkuver keyrð á kolum, mikil aukning í einkabílaeign og svo hafa veðurskilyrðin verið þess háttar að styrkurinn eykst – lítill vindur sér í lagi. Það þarf því ekki mikið til að styrkur svifryksmengunar fari yfir heilsuverndarmörk og veldur þetta miklum áhyggjum.

Yfirvöld hafa reynt að sporna við menguninni síðastliðna daga með því að takmarka framkvæmdir og iðnað, banna notkun obinberra bíla og beint því til skóla að draga úr útiveru.

Ekki einstakt

Á sama tíma, samkvæmt mælingum (reyndar í frétt) í Dehli, Indlandi, á nokkuð venjulegum, jafnvel vindasömum, degi er styrkur PM2.5 engu að síður á bilinu 130 til 565 µg/m3 !

Við getum verið þakklát fyrir rok og rigningu hér á Íslandi ! Vissulega höfum við ekki jafnsterkar uppsprettur fyrir svifryksmengun, en engu að síður getur styrkurinn risið nokkuð hratt ef hitahvörf og stillur eru. Þessar tölur sem nefndar eru hér að ofan eru þó á við áramót í stillu.

Monday, January 14, 2013

Gott að vera sá stóri

Í stórfínu viðtali við Sigurð Reyni Gíslason, jarðvísindamann við Háskóla Íslands, í Silfri Egils 13. janúar 2013, sýndi SRG graf þar sem fram kemur að losun gróðurhúsalofttegunda hefur staðið nokkuð í stað hjá iðnríkjum, en stóraukist hjá þróunarlöndum.

Einnig kom fram að þróunarlöndin, mörg hver, berjast fyrir því að fá að auka sína útlosun. Enda oft úr nánast engu í eitthvað. Má benda á í því samhengi að við Íslendingar notuðum sambærileg rök vegna Kyoto !

En, þetta er bara hálf sagan. Vandamálið liggur náttúrulega fyrst og fremst í því að iðnvæddu ríkin hafa efni á því að flytja mengandi iðnað til þróunarlandanna !

Þannig eru iðnríkin í þeirri kjöraðstöðu að geta sagt að mengun frá þeim hafi staðið í stað eða minnkað, fyrir utan náttúrulega að losna við mengun úr sínu landi og hitt að auðvitað berjast þróunarlöndin fyrir því að fá þó allavegana að hafa þessa framleiðslu, hafa auðvitað ekki efni á því að missa hana !
Eins og í svo mörgu öðru er þetta því "win-win" fyrir iðnríkin í krafti stærðar og auðs.

Því miður kemur þetta í umræðunni hinsvegar oft út eins og þróunarlöndin hafi engann metnað varðandi mengun, eða séu með "heimtufrekju" - eins og til dæmis BNA stillir því oft upp - ef þeir fá að auka losun, þá hljótum við að mega það líka !

Höldum Landsvirkjun í eigu almennings

Í Silfri Egils, sunnudag 13. janúar, kom fram að ef Landsvirkjun bætir engu við, þá geti það greitt allar sínar skuldir á 10 árum og skilað arði/gjöldum til ríkisins upp á 50 milljarða (minnir mig) á ári eftir það !

Þetta fullyrti Jón Gunnarsson, virkjanasinni mikill, úr Sjálfstæðisflokknum !

Kemur þá kannski ekki mikið á óvart að þeir vilji fara að "opna" Landsvirkjun. Fyrst hleypa inn lífeyrissjóðum - hver getur verið á móti því að ávaxta ellilífeyrinn - og svo þegar þeir þurfa að losa um eignir þá einkaaðilar ? Varla hefði ríkið bolmagn til að kaupa !

Enda, ef farið er eftir sjónarmiðum þeirra sem eru þeim megin, er alveg ómögulegt að slíkur hagnaður dreifist á alla jafnt, hlýtur að vera betra að eignast nokkra milljarðamæringa sem láta hunangsdropa drjúpa til almúgans ?!?

Er ekki betra að flýta sér hægt, virkja meira ef eftirspurn er til staðar, í stað þess að þurfa ávallt að selja á lágmarks verði vegna þess að annars fer öll fjárfestingin í súginn.
<|>

Friday, January 11, 2013

Ótrúlegar öfgar í Ástralíu

Kannski er það að bera í bakkafullan lækinn, en það er svo margt að gerast í Ástralíu og myndirnar þaðan alveg magnaðar.

Ástand, sem kallast La Nina, olli því að stórir hlutar Ástralíu hafa fengið meiri rigningu síðastliðin tvö ár en að jafnaði. Við það vex og eykst gróðurmagn. Þegar síðan þornar, þá er meiri eldsmatur til staðar.

Gróðureldarnir eru eitthvað á undanhaldi, enda þótt víðast sé mikið hættuástand ennþá.

En, þá herjar fellibylur, Narelle, á norðvesturströnd Ástralíu. Fellibylurinn sést vel á gervitunglamynd frá því í dag, 11. janúar 2013.

image
MODIS satellite image form 11 January 2013. Image courtesy of NASA Lance.

Sjáið svo þessa ótrúlegu mynd tekna 25 sjómílur norvestur af Onslow (sem er eiginlega beint suður af “auga” fellibylsins).

-
Photo: Brett Martin. Read more.

Þessi mynd er síðan orðin tákngervingur þessara elda. Sumir vilja jafnvel tengja hana við afleiðingar hnattrænnar hlýnunar, en alltaf er erfitt að alhæfa eitthvað slíkt út frá stökum atburðum. Hinsvegar passar þetta allt ágætlega saman við þær afleiðingar sem búast má við !

2013_Wildfires_Australia_Jan_IMG_0178
Amma með barnabörnin sín í Tasmaníu.

2013_Wildfires_Australia_Jan_IMG_0179
Engin furða að þau urðu að flýja út í vatn !

Thursday, January 10, 2013

Ísland að næturlagi – Black marble

Þessi mynd sýnir Ísland að næturlagi. Hluti af stærri mynd af jörðinni, sem kölluð hefur verið the Black marble. Tekið með Suomi NPP gervitunglinu sem NASA EOS, NOAA og DoD skutu á loft. Sýnir vel hversu stór hluti landsins er óbyggður.

BlackMarble_Iceland_2012

dnb_land_ocean_ice.2012.3600x1800

Evrópa lýsir skært að næturlagi, einnig austurströnd BNA, og auðvitað fjölmörg önnur svæði. Takið eftir að sumstaðar, til dæmis í Ástralíu, koma gróðureldar eða aðrir eldar (olíuvinnslusvæði) fram sem ljósir punktar.

Tuesday, January 1, 2013

Svifryk um áramót

Það var nú heldur minna af flugeldum þessi áramótin en oft áður – fannst manni að minnsta kosti.

Mælingar á PM10 frá Grensásvegi (GRE), Fjölskyldu- og húsdýragarðinum (FHG) og færanlegri mælistöð (FAR, Ártúnsholti, rétt suðaustan við gatnamót Birtingakvíslar og Straums), sýna að mengunin var tiltölulega skammvinn þessi áramót, en náði þó ansi háu gildi á FAR (þó hefur mælst yfir 2300 µg/m3 um áramót).

image

Tilraun var gerð til að mæla fínar- og örfínar agnir yfir áramótin og get ég vonandi sagt frá niðurstöðum þeirra mælinga fljótlega.

Að lokum, til gamans, þá sáust brennur á gervitunglamyndum frá því um kl. 22:20 í gærkvöldi (31. des, 2012). Þetta eru hitamyndir, þannig að brennurnar sjást sem svartir dílar – ef vel er að gáð.

avhrr_isl_mwir_20121231_2220
NOAA via VÍ

Gleðilegt nýtt ár !