Tuesday, September 16, 2014

Grein um gróðurelda

Í næsta hefti Náttúrufræðingsins, 84(1-2): 19-26, er grein um árstíðarbreytingar í tíðni gróðurelda á Íslandi.

Ágrip. Upplýsingum um gróðurelda á Íslandi var safnað með ítarlegri leit í rafrænum gagnasöfnum af fréttum, en fyrstu fréttir af gróðureldum voru frá 1943. Þá var leitað í gagnagrunni frá Mannvirkjastofnun fyrir árin 2003–2010 og frá brunavörnum Borgarbyggðar (2010). Flestir eldarnir eru litlir, en þó urðu tíu eldar þar sem yfir hektari lands brann á árunum 2007–2013, þar af sex sem voru stærri en 10 hektarar. Langsamlega flestir eldar kvikna vegna íkveikju (72%). Greinilegur árstíðamunur er á hvenær gróðureldar kvikna hérlendis, en langalgengast er að þeir verði á vorin (mars–maí, 70% gróðurelda), ef tekið er tímabilið 1943–2012, með hámarki í maí (29% af eldum ársins), þar á eftir í apríl (28%) og svo í mars (13%). Í janúar verða nokkuð margir eldar
(6%) og kvikna þeir augljóslega oftast vegna flugeldanotkunar kringum áramót. Ekki eru til nógu nákvæm gögn til að meta nákvæmlega hvort tíðni gróðurelda hafi breyst síðustu áratugi eða hvort dreifing þeirra á árstíðir hafi breyst. Hins vegar virðist sem gróðureldar yfir sumarmánuði séu tiltölulega nýleg þróun. Hún fer saman við hnattræna hlýnun, aukna skógrækt og sumarhúsabyggð og minni beit, sem hefur aukið gróðurmagn víða á landinu. Þetta gefur ríka ástæðu til að fylgjast vel með, skrá á skipulegan hátt gróðurelda og undirbúa viðbragðsáætlanir og hættumat vegna þeirra.

image

Hlutfallsleg dreifing elda á mánuði árin 1943–2000 (bláar súlur; 161 atburður) og 2001–2012 (rauðar súlur; 947 atburðir) og staðalfrávik fyrir hvern mánuð. – The distribution of wildfires each month for the period 1943–2000 (blue columns; 161 events) and 2001–2012 (red columns; 947 events), and standard deviation.

No comments:

Post a Comment