Sunday, April 20, 2014

Heilsuverndarmörk brennisteinsvetnis á Íslandi

Nýlega birtist grein eftir Sigurð Björnsson og Þröst Þorsteinsson þar sem heilsuverndarmörk brennisteinsvetnis hérlendis eru borin saman við sambærileg mörk víða í heiminum.

Í ljós kemur að mörkin hérlendis skera sig ekki úr fyrir að vera ströng, þrátt fyrir að því hafi annað slagið verið haldið fram.

Á myndinni hér á neðan má sjá samanburð heilsuverndarmarka. Smellið á myndina til að sjá stærri.

image
Heilsuverndarmörk á Íslandi (græn lína), viðmið WHO (rauð lína) og mörk/viðmið í þeim löndum, ríkjum og fylkjum sem skoðuð voru. Meðaltalstími er innan sviga.

Einnig tókum við saman upplýsingar um heilsufarsáhrif brennisteinsvetnis og greiningarmörk og settum fram á grafinu hér á neðan.

image
Áhrif H2S á lyktarskyn og heilsu. Ef styrkur er við íslensku heilsuverndarmörkin þarf hann að aukast u.þ.b. þrjúhunduðfalt til að fólk finni fyrir óþægindum vegna augnertingar. Grænir punktar eru lággildi, rauðir eru hágildi. Mælikvarði á y-ás er lógaritmískur.

Áhrifin skiptast gróflega í bráðaáhrif, augnerting og þarf fyrir ofan, og síðan er óljósara hvar og hvernig langtímaáhrifin koma fram. Þó má til dæmis skoða það að ónot vegna lyktarmengunar eru við lægri gildi en heilsuverndarmörkin.

Mörk WHO eru sett með bráðaáhrif í huga, og því ekki strangt til tekið sambærileg við íslensku mörkin sem eru hugsuð til verndunar vegna langtíma áhrifa.

Heimild

Sigurður Björnsson og Þröstur Þorsteinsson. 2013 (prentað 2014).
Heilsuverndarmörk brennisteinsvetnis og styrkur þess á höfuðborgarsvæðinu.
Náttúrufræðingurinn 83(3-4): 151 - 158.

Thursday, February 27, 2014

Svifryk og gróður–umfjöllun í Tímariti Háskólans 2014

Alltaf gaman að geta kynnt rannsóknir sínar. Í Tímarit Háskólans 2014 er fjallað aðeins um rannsóknir sem eru í gangi á áhrifum gróðurs á styrk svifryks.

Haskolatimaritid_2014_Throstur

Tímaritið í heild er hér (frétt á bls. 122).

Wednesday, February 19, 2014

Sterk austanátt og mikið svifryk

Í dag, 19. febrúar 2014, hefur verið mjög mikið svifryk í Reykjavík og víðar um landið.

Mjög sterk austanátt hefur verið allsráðandi í dag og þurrt, alveg þar til aðeins snjóaði síðdegis í Reykjavík – til dæmis.

image
Veðrið klukkan 17, enn mikill vindur. (Fallega skipt hitanum – blátt fyrir norðan, rautt fyrir sunnan)

image
Vindhraði í Reykjavík. Sjáum að toppur í svifryki, hér að neðan, passar vel við mesta vindhraðann upp úr 12. Síðan snjóaði aðeins um 16, og svifryk strax mikið niður.

Svifryk (PM10) mælt við Grensásveg fór verulega hátt ídag.

image
Af síðu UST. Ef litið er í töflu er hæst gildið 2133 µg/m3!

 

Mikið svifryk fyrir austan eins og þessi frétt af mbl.is segir frá:
Rykský yfir Kirkjubæjarklaustri

Tuesday, February 11, 2014

… og vindurinn kom til bjargar loftgæðunum

Eins og ég nefndi í pistli fyrr í dag, þá var okkar besti séns til að koma í veg fyrir mikið svifryk seinnipartinn að það færi aðeins að hreyfa vind. Það gekk eftir og toppurinn í eftirmiðdaginn varð ekkert stór.

image

Við sjáum að upp úr 12 og sérstaklega eftir 15, varð vindur heldur meiri og vindhviður fóru að slá í 10 m/s.

Áhrifin sjást glöggt á styrk svifryks (bláa línan) og raunar Nituroxíðs; NOx; (gula línan).

image

Mér sýnist að mögulega gætum við skriðið yfir heilsuverndarmörkin, sem eru 50 µg/m3 fyrir 24-klst meðaltal.

Að lokum er hér fjöldi bíla á leið vestur og síðan austur Ártúnsbrekkuna í dag.

Vestur:

image

Austur:

image

Fallegt stillt veður og mikið svifryk

Núna er verulega stillt og fallegt veður í Reykjavík. Sól, hiti rétt undir frostmarki og mjög hægur/enginn vindur.

image

Vindhraði í Reykjavík fenginn af síðu Veðustofu Íslands. Frá því um 6 í morgun hefur verið alveg logn (vindhraði <2 m/s og engar hviður).

Samfara því er styrkur svifryks mjög hár við Grensásveg. Þar er það umferðin sem mengar. Á myndinni hér að neðan sést þetta samband sérstaklega vel. Nituroxíð (NOx; appelsínugula línan) myndast við útblástur bíla og greinilegt er að svifrykið (bláa línan) er vegna umferðar þegar gögnin eru skoðuð saman.

image

Það verður “spennandi” að sjá hvort toppur komi seinnipartinn. Eina sem getur bjargað er aukinn vindur og úrkoma.

Tuesday, January 28, 2014

Gróðureldur í Noregi

Hér á Íslandi hugsum við oftast ekki mikið um gróðurelda. Sér í lagi ekki eftir sumar eins og í fyrra, þegar varla var þurrt tvo daga í röð (amk sunnanlands). Hinsvegar er mikill gróður víða hérlendis og þurrkatímabil geta orðið löng og gróður mjög þurr.

Nú geisa gróðureldar í Noregi. Ef þið skoðið myndirnar sem fylgja fréttunum (tenglar hér að neðan) þá má sjá að landslagið þarna er ekki svo frábrugðið því sem finna má hér á Íslandi. Sérstaklega er rétt að benda á að talað er um að eldurinn hafi kviknað í lyngi !

Verður manni strax hugsað til t.d. Skorradalsins, þar sem sveitastjórnin hefur lengi unnið að því að koma gróðureldum inn í skipulagsmál sveitarfélaga. Og hreinlega vekja athygli á þeirri hættu sem skapast getur þar og mjög víða á landinu.

Brann Flatanger - Foto: Tariq Alisubh / NRK
Mynd af vef NRK: http://www.nrk.no/nyheter/1.11500908

Brann Flatanger - Foto: Tariq Alisubh / NRK
Mynd af vef NRK: http://www.nrk.no/nyheter/1.11500908

Brannfare. Meteorologisk institutt varsler stor skogbrannfare fra Helgeland til Vestlandet. Bildet viser brannen i Flatanger i natt.<br />(Foto: Ove Magne Ribsskog/Flatangernytt)
Mynd af vef adressa.no: http://www.adressa.no/nyheter/nordtrondelag/article9029229.ece

Tenglar á fréttir og myndir af eldunum í Þrændarlögum:

Wednesday, November 13, 2013

Ástæða þess að fuglar koma fyrr á varpstöðvar

Í áhugaverðri rannsókn, sem framkvæmd var af vísindamönnum við University of East Anglia (og Háskóla Íslands, Tómas G Gunnarsson), kom í ljós að áætæða þess að fuglar koma fyrr á varpstöðvar nú en áður er ekki vegna þess að einstakir fuglar ákveði að koma fyrr, heldur vegna þess að þeir verpa fyrr og “nýjir” fuglar koma því fyrr á varpstöðvarnar.

Hnattræn hlýnun leyfir þannig fuglum að verpa og koma ungum á legg fyrr en áður, sem aftur veldur því að þeir fuglar (sem fæðast “fyrr”) koma fyrr á varpstöðvarnar. Hinsvegar halda einstakir fuglar mjög fast við komutíma sinn á varpstöðvarnar.

EarlierBirdMigration

Eða, eins og segir í frétt um rannsóknina:

We found that birds hatched in the late 1990s arrived in May, but those hatched in more recent years are tending to arrive in April. So the arrival dates are advancing because the new youngsters are migrating earlier.

Þessi rannsókn skoðaði ferðavenjur Jaðrakans yfir 20 ára tímabil.

Meira um þessa rannsókn á Eurekalert.com.